Vilja að staða landbúnaðar í ESB-samningaferli verði skýrð

Höfuðstöðvar Evrópusambandsins.
Höfuðstöðvar Evrópusambandsins.

Bændasamtök Íslands hafa sent utanríkisráðherra og utanríkismálanefnd Alþingis bréf þar sem þess er krafist að staða landbúnaðar í samningaferlinu við Evrópusambandið verði skýrð.

Fram kemur á vef Bændasamtakanna, að þau telji að bæði stjórnvöld og Evrópusambandið hafi þrýst verulega á um að stjórnsýsla og löggjöf verði aðlöguð að reglum sambandsins á meðan á aðildarviðræðum stendur og áður en aðildarumsókn hefur fengið stjórnskipulega meðferð. Fari fram eins og horfi verði þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild marklaus enda verði búið að innleiða regluverk Evrópusambandsins hér á landi áður en til hennar komi.  

„Það hefur verið staðfest í vinnu samningahóps Íslands um landbúnaðarmál að reglur ESB ganga gegn varnarlínum þeim sem Bændasamtökin hafa dregið upp. Aðlögun að stjórnkerfi ESB vegna aðildarumsóknarinnar er þegar hafin í ýmsum málaflokkum. Það er í fullri andstöðu við það sem sagt var þegar umsókn Íslands um aðild var send. ESB virðist líta svo á að Ísland verði aðildarríki og fjöldi starfsmanna sambandsins hefur það eitt hlutverk að vinna að þeirri niðurstöðu. Við bændur krefjumst þess því að tekin verði af öll tvímæli um þessi mál og staða landbúnaðar í aðildarviðræðunum verði skýrð hið fyrsta,“ er haft eftir Haraldi Benediktssyni, formanni Bændasamtakanna, á vef þeirra.

Vefur Bændasamtakanna

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka