Rio Tinto Alcan mun verja 347 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur 40,6 milljörðum íslenskra króna, til að uppfæra búnað og auka framleiðslugetu álversins í Straumsvík í kjölfar þess að endanlega hefur verið gengið frá nýjum raforkusamningi við Landsvirkjun sem samkomulag tókst um fyrr á þessu ári.
Tilkynnt var um þetta á blaðamannafundi sem nú stendur yfir í Straumsvík.
Miðar að 20% framleiðsluaukningu
Nýi raforkusamningurinn tekur gildi 1. október næstkomandi og er til ársins 2036. Hann gerir Rio Tinto Alcan kleift að hækka strauminn í álverinu þar sem í honum er kveðið á um viðbótarorku sem nemur 75MW auk áframhaldandi afhendingar á þeirri orku sem álverið kaupir í dag. Straumhækkunin er hluti af fjárfestingarverkefni sem miðar að því að auka framleiðslu álversins um 20% í tæplega 230 þúsund tonn á ári, ásamt því að auka afkastagetu lofthreinsibúnaðar og auka rekstraröryggi með uppfærslu á rafbúnaði.
Eyða 1,5 milljarði í hverjum mánuði á Íslandi
„Við höfum átt árangursríkt samstarf við Íslendinga í meira en 40 ár og byggjum nú á þeirri góðu reynslu. Góð samskipti við helstu hagsmunaaðila á Íslandi áttu þátt í að gera þessa tugmilljarða fjárfestingu mögulega og treysta þannig grundvöll fyrirtækisins til lengri tíma. Álverið veitir 450 manns atvinnu með beinum hætti og eyðir í hverjum mánuði 1,5 milljörðum króna á Íslandi. Þetta eru því góð tíðindi bæði fyrir Rio Tinto Alcan og fyrir Ísland,“ segir Jean-Philippe Puig, forstjóri Rio Tinto Alcan í Evrópu, Miðausturlöndum og Afríku, í fréttatilkynningu.
Skapar hundruð starfa á meðan framkvæmdum stendur
„Straumhækkunarverkefni ISAL er í takt við þá stefnu Rio Tinto Alcan að þróa áfram þær rekstrareiningar sem þykja skara fram úr. ISAL notar hreina orku, hefur lágmarkað losun gróðurhúsalofttegunda, náð framúrskarandi árangri í heilbrigðis-, öryggis-, og umhverfismálum og reynst áreiðanlegur framleiðandi á hágæðavörum fyrir viðskiptavini okkar,” segir Jacynthe Côté, forstjóri Rio Tinto Alcan, í fréttatilkynningu.
„Við erum stolt af því að fjárfesta í framtíð ISAL. Straumhækkunarverkefnið kemur til með að skapa hundruð starfa meðan á framkvæmdum stendur, sem verða kærkomin viðbót fyrir íslenskt efnahagslíf. Verkefnið styrkir jafnframt stöðu okkar sem einn af stærstu útflytjendum á Íslandi, sem kemur jafnt ISAL sem og íslensku efnahagslífi til góða,” segir Rannveig Rist, forstjóri Alcan á Íslandi, í tilkynningu.
Gert er ráð fyrir að stigvaxandi framleiðsluaukning hefjist í apríl árið 2012 og að fullum afköstum verði náð í júlí 2014.