Hæstiréttur hefur fellt úr gildi úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að vísa frá ákæru fyrir meint brot vegna ábyrgðar á persónulegum skattskilum þeirra Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar og skattskil félagsins Gaums.
Ákæra vegna meintra brota í tengslum við skattskil Jóns Ásgeirs, Tryggja og Kristínar
Jóhannesdóttur sem fyrirsvarsmanna félaganna Gaums og Baugs, stóð hins vegar
óbreytt, þ..e. ábyrgð Jóns Ásgeirs og Kristínar varðandi Gaum, og Jóns
Ásgeirs og Tryggva varðandi Baug.
Saksóknari efnahagsbrota kærði frávísunina til Hæstaréttar. Kröfur þeirra Jóns Ásgeirs, Tryggva, Kristínar og Gaums byggðu á því að þau hefðu þegar mátt þola refsingu í formi skattálags fyrir þau brot, sem þau voru ákærð fyrir. Með því að sækja mál á hendur þeim í annað sinn fyrir brotin væri brotið gegn samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu.
Pétur Guðgeirsson, héraðsdómari, komst að þeirri niðurstöðu, að mannréttindadómstóll Evrópu hafi með nýlegum dómi vikið frá fyrri fordæmum sínum um túlkun á skilyrðinu um „sama brot“. Nú réði ekki lengur úrslitum hvort hið fyrra og síðara mál lúti að refsiákvæðum sem séu „samsvarandi í grundvallaratriðum“ heldur sé nægjanlegt að málsmeðferð í síðara máli varði sömu eða samsvarandi atvik og lágu til grundvallar málsmeðferð eða refsingu í fyrra málinu.
Hæstiréttur vísar hins vegar til þess, að löggjafinn hefði áréttað, að þrátt fyrir lögfestingu mannréttindasáttmálans væri enn byggt á grunnreglunni um tvíeðli landsréttar og þjóðaréttar að því er varðaði gildi úrlausna þeirra stofnana sem settar hefðu verið á fót samkvæmt sáttmálanum. Þótt dómstólar litu til dóma mannréttindadómstólsins við skýringu sáttmálans þegar reyndi á ákvæði hans sem hluta af íslenskum landsrétti, leiddi af þessari skipan að það væri verkefni löggjafans að gera nauðsynlegar breytingar á landsrétti til að virða skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu.
Hér á landi væri byggt á því, að heimilt væri að haga stjórnkerfi skattamála með þeim hætti að fjallað væri um beitingu álags og ákvörðun refsingar í sitthvoru málinu, þótt þau gætu átt rót sína að rekja til sömu eða samofinna atvika. Ef kröfur sakborninganna yrðu teknar til greina hefði því í reynd verið slegið föstu, að þessi skipan fengi ekki staðist.
Hæstiréttur vísaði einnig til þess, að dómaframkvæmd mannréttindadómstóls Evrópu hefði verið misvísandi um þau atriði sem miðað skyldi við þegar metið væri hvort fjallað væri um sama brot í fyrri og síðari úrlausn um refsiverða háttsemi.
Ef slá ætti því föstu, að þessi skipan skattamála hér á landi fengi ekki staðist vegna ákvæða mannréttindasáttmálans yrði að minnsta kosti að liggja skýrt fyrir að íslensk lög færu í bága við þau, eftir atvikum í ljósi dóma mannréttindadómstólsins. Segir Hæstiréttur, að þegar af þeirri ástæðu að ekki standi þannig á í þessu máli verði að fella úrskurð héraðsdóms úr gildi og leggja fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.