Guðbjartur Hannesson félagsmálaráðherra segir dóm Hæstaréttar um að veðbönd standi þrátt fyrir samning um greiðsluaðlögun skuldara hafa komið sér á óvart.
„Það er þegar komin í gang vinna við að skoða þetta. Við höfum rætt saman, ég og umboðsmaður skuldara, og kallað eftir því að endurskoðuð verði þrenn lög. Lög um greiðsluaðlögun, lög um ábyrgðarmenn og lög um gjaldþrot. Þannig að að minnsta kosti verði hægt að setja lög svo að þetta verði stöðvað með þessum hætti þó að við getum átt í erfiðleikum með að breyta því afturvirkt. Hugmyndin er allavega að fara mjög vel yfir þetta og skoða þetta, því þetta er ekki gott mál,“ segir Guðbjartur sem kveður ríkið þurfa að greiða fullar bætur fyrir hvern veðrétt ef lagasetningin yrði afturvirk.