Útivistarfélög á Íslandi efna til stærstu jarðarfarar fyrr og síðar í Vonarskarði 2. október kl. 13 að því er fram kemur í tilkynningu frá ferðafrelsisnefnd ferðafélagsins 4x4.
Jarðsyngja á sjálft ferðafrelsi Íslendinga með táknrænum hætti en félagið hefur mótmælt harðlega lokun Vonarskarðs við stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs.
Sveinbjörn Halldórsson, formaður ferðafélagsins 4x4, segir félagið ætla að reisa einn stærsta kross á Íslandi í Vonarskarði. „Það verður kannski allt vitlaust út af þessu. Mér kæmi það ekki á óvart þegar við tölum um stærðina á krossinum að við þyrftum byggingarleyfi,“ segir Sveinbjörn.