Rannveig Rist, forstjóri Alcan á Íslandi, segist vera sátt við þann raforkusamning sem fyrirtækið hefur gert við Landsvirkjun. Að öðru leyti vill hún ekki tjá sig um efni samkomulagsins. Þá segir hún að fyrirhugaðar framkvæmdir, sem séu mjög tæknilega flóknar, muni bæta rekstraröryggi fyrirtækisins.
„Við verðum með meira rekstraröryggi, við verðum með endurnýjun á rafmangsbúnaði þannig að við verðum með öruggari rekstur á kerskálunum,“ segir Rannveig spurð um áhrif framleiðsluaukningarinnar á árekstur fyrirtækisins á Íslandi.
„Við misstum nú út einn kerskála árið 2006, þannig að þetta minnkar líkur á því. Við bætum hreinsibúnaðinn þannig að við náum að hreinsa betur hvert per tonn af áli sem fer frá okkur. Og síðast en ekki síst þá náum við að auka framleiðsluna um 20%, sem skiptir líka heilmiklu máli að ná til þess að tryggja grundvöllinn undir framtíð hér,“ segir Rannveig ennfremur.
Aðspurð segir Rannveig að áður en verkefnið hófst hafi fyrirtækið verið komið að þanmörkum í framleiðslu. Ljóst sé að tæknilega flókin framkvæmd sé framundan.
Spurð út í raforkusamning Alcan og Landsvirkjunar segir hún: „Samningurinn er eitthvað sem við sættum okkur við. Það er hægt að orða það þannig. En það er alltaf þegar menn semja þá verða þeir að komast að einhverri niðurstöðu sem báðir aðilar eru sáttir við.“
Hún vill að öðru leyti ekki tjá sig um samkomulagið.