Allsherjanefnd mun skila umsögn sinni um tillögur þingmannanefndarinnar á morgun að sögn Róberts Marshalls, þingmanns Samfylkingarinnar og formanns nefndarinnar. „Við höfum frest til 16:30 á morgun en við stefnum á að ná því,“ segir Róbert.
Bæði allsherjarnefnd Alþingis og þingmannanefndin undir forystu Atla Gíslasonar, þingmanns Vinstri grænna, funduðu í dag um þær tillögur um málshöfðun gegn ráðherrum sem liggja fyrir Alþingi.
Allsherjarnefnd hefur verið beðin um að skila umsögn sinni um tillögurnar til þingmannanefndarinnar síðdegis á morgun. Þingmannanefndin, sem er með málið, stefnir að því að skila nefndaráliti á laugardag. Gangi þetta eftir er líklegt að seinni umræða um tillögur til málshöfðunar gegn ráðherrum hefjist á mánudag.
Talið er öruggt að komi þingsályktunartillaga meirihluta
þingmannanefndarinnar, um að fjórir fyrrverandi ráðherrar verði ákærðir
og dregnir fyrir landsdóm, til atkvæðagreiðslu á Alþingi verði hún borin
undir atkvæði í fjórum liðum: Fyrst verði greidd atkvæði um Geir H.
Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, því næst um Ingibjörgu Sólrúnu,
fyrrverandi utanríkisráðherra, þá Árna M. Mathiesen, fyrrverandi
fjármálaráðherra, og loks Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskipta-
og bankaráðherra.