Vill efla tengsl Íslands og Rússlands

Ólafur Ragnar Grímsson og Vladímír Pútín á fundi í Moskvu …
Ólafur Ragnar Grímsson og Vladímír Pútín á fundi í Moskvu í dag.

Vladímír Pútín, forsætisráðherra Rússlands, sagði á fundi með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, í Moskvu  í  dag að mikilvægt væri að efla samstarf Íslands og Rússlands á komandi árum.

Í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands er haft eftir Pútín, að lega landanna, nágrenni og sameiginlegir hagsmunir á Norðurslóðum, nýting orkulinda og nýjar siglingaleiðir í norðri milli Asíu og Evrópu kalli á aukin og náin samskipti ríkjanna.

Þá hafi Pútín lýst áhuga rússneskra orkufyrirtækja á því að kanna möguleika Drekasvæðisins. Einnig væri brýnt að hefjast nú þegar handa um gerð áætlana og alþjóðlegs regluverks varðandi ferðir skipalesta sem myndu fara um hinar nýju norðurleiðir á komandi árum og áratugum. Byggja þyrfti hafnir, skipuleggja svæði fyrir gámageymslur og þróa samgöngumiðstöðvar sem þjónað gætu þessari nýju vídd í heimsviðskiptunum. Þar skiptu lega Íslands og Rússlands höfuðmáli.

Pútín hvatti einnig til þess að íslenskir aðilar tækju virkan þátt í jarðhitanýtingu á Kamtsjatkasvæðinu og hyggst senda forystumenn rússneskra ríkisstofnana og svæðisstjórnar Kamtsjatka til Íslands til að kynna sér þá víðtæku jarðhitanýtingu sem Íslendingar hafa þróað.

Þá lagði hann áherslu á áframhaldandi samstarf landanna um ábyrga nýtingu fiskistofna og eflingu viðskipta með sjávarafurðir. 

Tilkynning forseta Íslands

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert