Vill þingfund á morgun

Ragnheiður Elín Árnadóttir á Alþingi.
Ragnheiður Elín Árnadóttir á Alþingi. mbl.is/Eggert

Formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins óska í dag bréflega eftir því að forseti Alþingis beiti sér fyrir því að næstu dagar verði nýttir til þingfunda þar sem ýmis aðkallandi fái umfjöllun. Engir þingfundir voru í dag og hafa ekki verið boðaðir á morgun en þingmannanefnd fjallar nú um þingsályktunartillögur um málshöfðun gegn fyrrverandi ráðherrum.

Samkvæmt upplýsingum frá Sjálfstæðisflokknum hefur forseti Alþingis ekki orðið við þessari beiðni.

Ragnheiður Elín Árnadóttir vísar í bréfi sínu til þess, að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafi farið fram á það við forseta Alþingis í gær, að rædd verði áríðandi mál sem brenna á þjóðinni á meðan þingnefndir fjalla um þingsályktunartillögunar. Segir Ragnheiður Elín, að þessu erindi hafi ekki verið svarað á þingfundi en fregnir hafi borist af því að forseti hafi hafnað beiðninni á fundi forsætisnefndar að loknum þingfundi.

Segir Ragnheiður Elín afar brýnt, að þingið nýti tímann og fjalli um ýmis aðkallandi mál sem bíða umfjöllunar á Alþingi, s.s. niðurstöðu Hæstaréttar í gengistryggingarmálum, niðurstöðu Magma-nefndarinnar svokölluðu og dóm Héraðsdóms Reykjavíkur vegna virkjana í neðri hluta Þjórsár. Mörg önnur mætti nefna eins og stöðuna í Icesave, atvinnumál og skuldavanda heimilanna.
 
Þá óskar Ragnheiður Elín jafnframt eftir því að forseti þingsins kalli formenn þingflokka saman til fundar hið fyrsta til þess að fara yfir dagskrá þingsins næstu daga.
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert