Árni Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, mætti á fund þingflokks Samfylkingarinnar sl. miðvikudag og útskýrði afstöðu sína til kæruefna í þingsályktunartillögum sem liggja fyrir Alþingi. Tillögurnar gera ráð fyrir að landsdómur verði kallaður saman. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Árna var boðið til fundar líkt og hinum fyrrverandi ráðherrunum þremur sem meirihluti þingmannanefndar telur hafa gerst brotlega við lög um ráðherraábyrgð og fleira. Áður hafði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, þegið sambærilegt boð þingflokks Samfylkingarinnar en Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, og Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, afþakkað.
Í Fréttablaðinu er einnig birt skoðanakönnun um afstöðu landsmanna til þess hvort eigi að ákæra ráðherra. 61,2 prósent þeirra sem afstöðu tóku í könnuninni sögðust vilja ákæra einhvern ráðherra fyrir landsdómi. Um 38,8 prósent vildu ekki ákæra neinn af ráðherrunum.