Fagna nýjum jarðgöngum

Jarðgöngin milli Bolungarvíkur og Hnífsdals heita Óshlíðargöng.
Jarðgöngin milli Bolungarvíkur og Hnífsdals heita Óshlíðargöng. mynd/bb.is

Baráttuhópurinn ÁFRAM  VESTUR hefur sent frá sér tilkynningu þar sem Alþingi og ríkisstjórn er þakkað fyrir að bregðast skjótt við haustið 2005 og taka ákvörðun um Bolungarvíkurgöng þegar ljóst var að aðstæður höfðu breyst og að ráðast yrði án tafar í gerð jarðganga til þess að tryggja öryggi vegfarenda.  Göngin verða tekin í notkun á morgun.

Í baráttuhópnum ÁFRAM  VESTUR eru 13 einstaklingar einkum búsettir á Vestfjörðum sem vinna að því að afla stuðnings við endurbyggingu Vestfjarðavegar 60, frá Þingeyri við Dýrafjörð austur að Bjarkalundi í Austur Barðastrandarsýslu.

„Baráttuhópurinn ÁFRAM  VESTUR fagnar opnun jarðganga milli Hnífsdals og Bolungarvíkur og þeim löngu brýnu úrbótum á  samgöngum á norðanverðum Vestfjörðum sem þeim fylgir. Hópurinn þakkar Alþingi og ríkisstjórn fyrir að bregðast skjótt við haustið 2005 og taka ákvörðun um göngin þegar ljóst var að aðstæður höfðu breyst og að ráðast yrði án tafar í gerð jarðganga til þess að tryggja öryggi vegfarenda.  Kannanir hafa alla tíð sýnt eindreginn stuðning  landsmanna við þessa þörfu framkvæmd, sem Vestfirðingar sjálfir hafa einróma staðið saman um.
 
Miklu skiptir nú sem fyrr að öllum sé ljós þörfin fyrir brýnar úrbætur í samgöngumálum, að kröfum sé stillt í hóf og ráðdeildar gætt við ráðstöfun opinbers fjár og að góð samstaða sé um hvert skref. Vestfirðingar hafa leitast við að hafa þessi sjónarmið að leiðarljósi og eru þakklátir fyrir mikinn stuðning landsmanna.
 
ÁFRAM  VESTUR sendir Vestfirðingum og landsmönnum öllum bestu árnaðar- og hamingjuóskir með nýju jarðgöngin við Ísafjarðardjúp.“

 
Í hópnum eru Hlynur Þór Magnússon, Reykhólasveit; Haukur Már Sigurðsson, Patreksfirði; Magnús Ólafs Hansson, Patreksfirði; Ragnar Jörundarson, Patreksfirði, nú búsettur í Hafnarfirði; Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, Tálknafirði; Sigmundur Þórðarson, Þingeyri; Sigurður Hafberg, Flateyri; Sigurður Pétursson, Ísafirði; Sigurður Jón Hreinsson, Ísafirði; Halldór Halldórsson, Ísafirði; Eggert Stefánsson, Ísafirði; Kristmann Kristmannsson, Ísafirði; Kristinn H. Gunnarsson, Bolungavík.
 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert