Fara verði varlega í að hækka áfengis- og tóbaksgjöld

Starfshópur, sem fjallað hefur um breytingar og umbætur á skattkerfinu, segir í áfangaskýrslu að fara verði varlega í að hækka frekar vörugjöld á áfengi og tóbak með almennum hætti, umfram það að gjaldtakan haldi verðgildi sínu. Þessi vörugjöld hafa hækkað um rúmlega 40% á síðustu misserum.

Segir starfshópurinn í skýrslunni, að þetta eigi þó sérstaklega við um áfengi en vel kunni að vera að svigrúm sé til að hækka tóbaksgjaldið umfram verðlag.

Nokkur samdráttur hafi orðið í sölu áfengra drykkja á síðustu misserum en þó ekki meiri en ætla mátti á almennu samdráttarskeiði neyslu. Verðhækkun á áfengi á síðustu mánuðum stafi að meiri hluta til af hækkun á innkaupsverði, sem hafi hækkað verulega umfram gengisbreytingar.

Sala á áfengi og tóbaki í komuverslunum fríhafna hefur verið undanþegin vörugjöldum auk þess sem salan er undanþegin virðisaukaskatti. Starfshópurinn segir, að með tilliti til hlutverks þessara vörugjalda, að draga úr neyslu um leið og aflað er tekna fyrir ríkissjóð, megi draga í efa réttmæti þessa fyrirkomulags og ætti því að koma til álita að fella það niður hvað vörugjöldin varðar þótt undanþága frá virðisaukaskatti haldist.

Rétt sé þó að vekja athygli á því að slíkt kunni að rýra tekjur rekstraraðila fríhafnanna og að því leyti sem þær tekjur renni til þess að halda uppi þjónustu á flugvöllum kunni að verða nauðsynlegt að bregðast við því með öðrum hætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert