Um tvö hundruð og tuttugu heimili hafa verið seld á nauðungaruppboðum það sem af er árinu hjá embætti sýslumannsins í Keflavík. Eitt hundrað heimili verða seld í byrjun október en rúmlega þrjú hundruð og sextíu eignir eru í byrjun uppboðs. Þá bíða fjörtíu eignir fyrirtöku hjá embættinu og því u.þ.b fimm hundruð eignir alls í ferli sem lokið gæti með nauðungarsölu á Suðurnesjum.
Lög nr. 11/2010 um nauðungarsölu kveða á um að fresta megi framhaldsuppboði í allt að þrjá mánuði en lögin falla úr gildi 31. október næstkomandi.
Ásgeir Eiríksson, staðgengill sýslumannsins í Keflavík segir því hafa komið upp á mismunandi tíma hvenær eignir eru seldar á framhaldsuppboði. „Við erum búin að vera að selja hérna alveg á fullu og margir hafa nýtt sér þetta hjá okkur en þeir eru þá búnir að nýta sér þennann frest. Það eru engin tímamörk 31. október næstkomandi önnur en þau að lögin renna út. Þá kemur enginn hellingur í framhaldssölu því við erum mikið til búin að selja þær eignir sem gátu nýtt sér þetta. Þessi lög tóku gildi 25. febrúar.“
Ferli nauðungarsölu er þrískipt. Fyrst er fyrirtaka málsins en þar er ákveðið hvort senda eigi mál í byrjun uppboðs. Við byrjun uppboðs er ákveðið hvort selja eigi eignina nauðungarsölu en það er gert með framhaldssölu.
Sem fyrr segir eru tæp eitt hundrað eignir sem boðnar verða upp á framhaldssölu í byrjun október. „Það er búið að selja 222 eignir á þessu ári og svo bætast við þessar hundrað eignir. Í stöðunni byrjun uppboðs eru 366 fasteignir en þau mál verða tekin fyrir 7 október, 18. nóvember, og 9. desember. Þá er hugsanlegt að gerðarbeiðendur ákveði að þær verði selda og verði þá seldar innan fjögurra vikna. Þær eru þannig komnar dálítið langt,“ segir Ásgeir.