Grunsamlegir menn taka myndir af húsum

Lögreglan biður fólk að vera á varðbergi.
Lögreglan biður fólk að vera á varðbergi. Eggert Jóhannesson

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hafa borist tilkynningar um grunsamlegar mannaferðir í Árbæjarhverfi í Reykjavík. Um er að ræða gangandi menn á aldrinum 20 til 30 ára sem hafa verið að taka myndir af húsum.

Vart hefur orðið við mennina í Heiðarási, Grundarási, Klapparási og fleiri götum í Árbæjarhverfi.  Þeir hafa vakið athygli árvökulla íbúa sem hafa þótt mennirnir vera grunsamlegir.  Styggð hefur komið að mönnum í einhverjum tilvikum þegar þeir veittu því athygli að íbúar voru að fylgjast með þeim.
 
Mennirnir eru sagðir  fótgangandi og oft með bakpoka.  Þeir eru sagðir vera útlendingar sem tala bjagaða íslensku.  Samskonar tilkynningar hafa borist um mannaferðir í Grafarvogi og í einu tilviki var aðili sem lýsingin á við kominn inn í hús þar sem húsráðandi var heimavið.  Sá bar því við að hann hefði farið húsavillt.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að „með samstilltu átaki lögreglunnar og íbúa náum við árangri í að fækka innbrotum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert