„Það er í sjálfu sér ekkert launungamál að rannsókn á báðum þessum óhöppum leiðir í ljós að menn sofna við stýrið. Það er grunnorsök þessara óhappa,“ sagði Sigurður Brynjúlfsson, yfirlögreglumaður á Húsavík, aðspurður um strand mótorbátsins Háey 24. september sl. og línubátsins Lágey í mars.
Lögreglan á Húsavík vinnur að skýrslutöku vegna strandsins, nánar tiltekið við Hólshöfða, skammt frá Raufarhöfn, 24. september síðasliðinn. Vekja þessar upplýsingar athygli, ekki síst í ljósi þess að í mars sofnaði skipstjóri á línubátnum Lágey við Héðinshöfða, um þrjár sjómílur norður af Húsavík.
Búist er við að skýrslutöku ljúki í síðasta lagi á morgun en ef ekki er talið tilefni til ákæru verður niðurstaðan lögð fyrir lögreglustjórann á Húsavík. Að öðrum kosti kann málið að enda á borðum Ríkissaksóknara.
Fjórir voru í áhöfn mótorbátsins er hann strandaði en björgunarsveitirnar Pólstjarnan frá Raufarhöfn og Hafliði frá Þórshöfn voru kallaðar út vegna strandsins. Björgunarmönnum tókst að koma Háey á flot og tók björgunaskipið Gunnþór hana í tog til Raufarhafnar.