Skrifaði undir fyrir Jóhönnu

Ingibjörg Sólrún mætir ásamt lögmanni sínum Sigurvin Ólafssyni til fundar …
Ingibjörg Sólrún mætir ásamt lögmanni sínum Sigurvin Ólafssyni til fundar við þingflokk Samfylkingarinnar í síðustu viku. mbl.is/Kristinn

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, segir í greinargerð sem hún sendi  þingmönnum í dag, að hún hafi skrifað undir yfirlýsingu til norrænna seðlabanka í maí 2008 vegna þess að Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi félagsmálaráðherra, var farin af fundi þegar skrifað var undir.

Í þingsályktunartillögu meirihluta þingmannanefndar, sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, er m.a. lýst þeirri afstöðu að Ingibjörg Sólrún hafi brotið lög um ráðherraábyrgð  með því að bregðast skyldu sinni um að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni.

Sérstök ástæða hafi meðal annars verið til þess í kjölfar yfirlýsingar til sænsku, dönsku og norsku seðlabankanna, sem undirrituð var 15. maí. Hafi Ingibjörgu Sólrúnu borið skylda til að fylgja þessari yfirlýsingu eftir innan ríkisstjórnarinnar.

Ingibjörg Sólrún segir, að það sé aðeins á valdi forsætisráðherra að boða til ráðherrafunda. Þá segir hún rangt, að undirritun fyrrgreindrar yfirlýsingar  hafi verið embættisverk utanríkisráðherra.

„Yfirlýsingin fól í sér áform um tilteknar aðgerðir á sviði efnahagsmála, í starfsemi Íbúðalánasjóðs og gagnvart bönkunum. Það sem að ríkisstjórninni snéri var fyrst og fremst ábyrg stefna í ríkisfjármálum og breytingar á Íbúðalánasjóði. Ég skrifaði undir yfirlýsinguna sem oddviti Samfylkingarinnar vegna þess að Jóhanna Sigurðardóttir, sem kölluð hafði verið til fundar vegna þessarar yfirlýsingar þann 15. maí 2008, var farin af fundi þegar skilaboð komu frá norrænu seðlabankastjórunum um að það þyrfti að ganga frá yfirlýsingunni þegar í stað. Ég skrifaði undir þar sem málefni Íbúðalánasjóðs heyrðu undir félagsmálaráðherra Samfylkingarinnar og ég hafði gengið úr skugga um að ráðherrann var samþykk því sem í yfirlýsingunni fólst. Með þeim hætti gekkst ég í skuldbindingu fyrir því að unnið yrði að málefnum Íbúðalánasjóðs í samræmi við það sem fram kom í yfirlýsingunni - sem var og gert," segir í greinargerð Ingibjargar Sólrúnar.

„Ég dreg ekki úr því að í undirrituninni fólst skuldbinding okkar allra sem undir hana rituðum en hún upphefur samt ekki þá skiptingu verkefna og ábyrgðar sem er grundvöllur íslenskrar stjórnskipunar," bætir Ingibjörg Sólrún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert