Strætisvagn á ferð um Vonarstræti í Reykjavík varð fyrir óvæntum töfum þegar karlmaður tók sér stöðu fyrir framan vagninn og neitaði að færa sig.
Að sögn sjónarvotta stóð maðurinn nokkra metra frá strætóskýli þegar vagninn ók framhjá honum. Talið er að hann hafi ætlað að stíga um borð í strætisvagninn en þegar hann hægði ekki á sér tók maðurinn á rás og staðnæmdist fyrir framan vagninn á næstu gatnamótum og neitaði að færa sig.
Hringt var á lögreglu en þegar hún kom á staðinn var maðurinn horfinn. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni barst henni stuttu síðar annað símtal um að maðurinn hefði endurtekið leikinn. Ekki er vitað hvort lögreglan hafi haft hendur í hári hans.