„Gríðarleg ánægja sem fylgir því að keyra í gegn“

Hreinn Haraldsson, vegamálastjór, Ögmundur Jónasson, núverandi samgönguráðherra og Kristján L. …
Hreinn Haraldsson, vegamálastjór, Ögmundur Jónasson, núverandi samgönguráðherra og Kristján L. Möller, fyrrverandi samgönguráðherra, klipptu á borðann góða. mbl.is/Sigurjón J. Sigurðsson

Elías Jónatansson bæjarstjóri í Bolungarvík var glaður í bragði þegar mbl.is náði tali af honum í dag. Hátíðarstemning hefur ríkt í Bolungarvík í allan dag vegna opnunar jarðganganna á milli Bolungarvíkur og Hnífsdals.

„Það er ótrúlega mikil ánægja sem fylgir því að keyra í gegnum Bolungarvíkurgöng. Við getum sagt að við séum búin að bíða eftir göngum í mjög langan tíma því Óshlíðin var auðvitað aldrei fullnægjandi samgöngutæki. Það er gríðarleg ánægja sem fylgir þessu og það er það fyrsta sem slær mann,“ sagði Elías sem fór einna fyrstur í gegnum göngin eftir vígsluna í dag. Hnífsdalsmegin mætti hann kollega sínum í Ísafjarðarbæ, Daníel Jakobssyni, og voru göngin í kjölfarið tekin formlega í notkun fyrir umferð í báðar áttir.

Elías er bjartsýnn á aukin lífsgæði í Bolungarvík með tilkomu Bolungarvíkurganga. „Ég tel að fasteignaverðið í bænum muni hækka og verða meira í takt við það sem gerist á Ísafirði. Ég tel að það muni gerast mjög fljótt. Með þessu er Bolvíkingum einnig að opnast vinnumarkaður sem er í rauninni miklu stærri en verið hefur. Fólk hefur því aðgang að mun fjölbreyttari störfum. Dæmi eru um að fólk hafi ekki fundið starf við hæfi í Bolungarvík og hafi þess vegna tekið ákvörðun um að búa annars staðar. Nú höfum við aðgang að miklu fjölbreyttari störfum sem ekki eru í boði hér í Bolungarvík,“ benti Elías á í samtali við mbl.is. 

„Innanbæjarakstur alla leið“

Daníel tók í svipaðan streng. „Það er erfitt að gera sér grein fyrir því hversu mikil áhrif göngin munu hafa. Nú verður þetta innanbæjarakstur alla leið ef svo má segja og ég held að þetta sé skref í ferli sem við sjáum ekki alveg fyrir endann á. Ég reikna með að þetta muni styrkja svæðið til mikilla muna og samvinnan á milli bæjanna verður miklu meiri,“ sagði Daníel sem er nýtekinn við starfi bæjarstjóra í Ísafjarðarbæ. „Það er mjög gaman að koma inn í svona stóran viðburð. Ég vona bara að ég muni fá tækifæri til að taka þátt í fleiri jarðgangaframkvæmdum í starfinu. Það er engin spurning um að Dýrafjarðargöng eiga að vera næst á dagskrá. Samgöngurnar hér fyrir vestan eru bara ekki nægilega góðar. Að mínu mati þarf að setja samgöngur frá Ísafirði til suðurfjarðanna, og þaðan inn á þjóðveginn, í forgang. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir þetta svæði,“ sagði Daníel við mbl.is. 

Elías með blómvöndinn í fanginu ásamt Daníel og bæjarfulltrúum Ísafjarðarbæjar, …
Elías með blómvöndinn í fanginu ásamt Daníel og bæjarfulltrúum Ísafjarðarbæjar, Albertínu Elíasdóttur og Gísla Halldóri Halldórssyni. mbl.is/Sigurjón J. Sigurðsson
Löng bílaröð myndaðist við göngin en marga fýsti að aka …
Löng bílaröð myndaðist við göngin en marga fýsti að aka þar í gegn. mbl.is/Sigurjón J. Sigurðsson
Sr. Magnús Erlingsson, sóknarprestur á Ísafirði, vígði minnismerki við göngin …
Sr. Magnús Erlingsson, sóknarprestur á Ísafirði, vígði minnismerki við göngin í dag. mbl.is/Sigurjón J. Sigurðsson
Það ringdi þegar boðsgestirnir komu til opnunarhátíðarinnar í dag.
Það ringdi þegar boðsgestirnir komu til opnunarhátíðarinnar í dag. mbl.is/Sigurjón J. Sigurðsson
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ók gegnum göngin.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ók gegnum göngin. mbl.is/Sigurjón J. Sigurðsson
Lúðrasveit lék við opnun ganganna.
Lúðrasveit lék við opnun ganganna. mbl.is/Sigurjón J. Sigurðsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert