Íranar þyrmi lífi Ashtiani

Össur Skarphéðinsson flytur ræðu sína í New York í nótt.
Össur Skarphéðinsson flytur ræðu sína í New York í nótt.

Í ávarpi sínu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í nótt bað Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, Mahmoud Ahmadinejad, Íransforseta, fyrir hönd íslensku þjóðarinnar,  að þyrma lífi Sakineh Mohammadi Ashtiani, sem hefur verið dæmd til dauða fyrir hórdómsbrot.

Þá hvatti Össur Ísraelsstjórn til að hindra ekki flutning hjálpargagna til Gasasvæðisins. Sagði Össur, að Íslendingar hefðu mikla samúð með Palestínumönnum, sem þyrftu að þola hernám og kúgun. 

Sagði hann, að íslenskir hjálparstarfsmenn hefðu verið stöðvaðir í Ísrael í vikunni þegar þeir reyndu að flytja gervifætur til Gasasvæðisins. „Það er ekki viðunandi í augum Íslendinga. Þetta er ómannúðlegt og óréttlátt," sagði Össur og  bætti við að Íslendingar óttuðust ekki afleiðingar þess, að berjast fyrir rétti íbúa Palestínu þar sem mannréttindi væru brotin daglega, einkum þó á Gasasvæðinu.

Í ræðu sinni fjallaði Össur einnig um stöðu Ísland og sagði, að  fjármálakreppan á Íslandi hefði að stórum hluta verið heimatilbúin, afleiðing kerfis, byggðu á kapítalisma þar sem eftirlit var hverfandi.

Nú væri Ísland að rétta úr kútnum og, þökk sé íslensku auðlindunum, væri hagvöxtur hafinn á ný á Íslandi. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði lýst því yfir í sumar, að kreppunni á Íslandi sé lokið.

Össur sagði að Íslendingar hefðu lært að beisla jarðhitann og jarðorkuver gætu skipt sköpum víða í heiminum, meðal annars í Austur-Afríku þar sem slík orkuver gætu frelsað íbúana úr viðjum orkufátæktar. Þá skorti hins vegar sérfræðiþekkingu og fjármagn. Íslendingar geti hins vegar boðið fram sérfræðiþekkinguna og stórþjóðir gætu lagt fram fjármagnið. 

Ávarp Össurar 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert