Risavaxið verkefni blasir við aðilum vinnumarkaðarins þegar kemur að endurnýjun kjarasamninga í haust. Undirbúningur er í fullum gangi úti í félögum og samböndum en ASÍ fær væntanlega það verkefni að stilla upp hvaða kostir eru í stöðunni.
Flestir virðast nú þeirrar skoðunar að útilokað sé að ætla að komast í gegnum þessa lotu, nema reynt verði að ná einhverri heildstæðri niðurstöðu. Eina leiðin sé að koma á þríhliða samráði aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda.
En vandinn er sá að sú leið virðist ófær í dag. Verkalýðshreyfingin ber lítið sem ekkert traust til ríkisstjórnarinnar, frost er í samskiptunum, að því er fram kemur í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag.