Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, segir í pistli á heimasíðu sinni, að eins og málum sé komið, ætti nýtt þing, sem kemur saman 1. október, að komast að þeirri niðurstöðu, að skynsamlegasta úrræðið til að koma skikki á störf Alþingis og stjórn ríkisins væri að rjúfa þingið og efna til nýrra kosninga.
Þá yrði kosningum til stjórnlagaþings frestað og kosið til alþingis 27. nóvember 2010.
„Þetta er hin eina ábyrga afstaða, sem þingmenn geta tekið í núverandi stöðu. Stjórnarsamstarfið er í molum, stjórnarflokkarnir í upplausn og allt rekur á reiðanum. Við slíkar aðstæður ber að leggja mál fyrir kjósendur og fela þeim þá ábyrgð að kjósa nýtt fólk til forystu," segir Björn, sem sat síðast í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar frá 2007 til 2009.