Þingfundur hefur verið boðaður á Alþingi klukkan 17 í dag en þá verður dreift álitum þingmannanefndar, sem fjallað hefur um þingsályktunartillögur um málshöfðun gegn fyrrum ráðherrum.
Einnig verður dreift umsögn þingmannanefndarinnar um breytingartillögur við þingsályktunartillögu, sem nefndin stendur öll að og er í raun niðurstöður hennar eftir að hafa farið yfir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið.
Nefndin leggur fram tvö álit um þingsályktunartillögur um málshöfðun gegn ráðherrum. Að öðru álitinu standa sjö þingmenn, þeir þingmenn fimm, sem stóðu að þingsályktunartillögu um málshöfðun gegn fjórum ráðherrum og þeir tveir sem lögðu fram tillögu um að þrír ráðherrar yrðu ákærðir. Þingmennirnir leggja ekki til að gerðar verði breytingartillögur við tillögurnar.
Tveir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram sérálit. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, sem situr í þingmannanefndinni, sagði við mbl.is, að í nefndarálitinu sé rökstutt hvers vegna sjálfstæðismenn standa ekki að þingsályktunartillögum um málshöfðun gegn ráðherrum.