Þingmannanefnd situr á fundi

Þingmannanefndin, sem hefur fjallað um rannsóknarskýrslu Alþingis..
Þingmannanefndin, sem hefur fjallað um rannsóknarskýrslu Alþingis.. mbl.is/Ernir

Þingmannanefnd, sem fjallað hefur um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, situr enn á fundi en gert er ráð fyrir að hún skili áliti í dag um þingsályktunartillögur um að sækja fyrrverandi ráðherra til saka fyrir landsdómi.

Allsherjarnefnd Alþingis skilaði í gær umsögn sinni um ráðherraábyrgð, landsdóm og skýrleika sakargifta í málefnum ráðherranna fyrrverandi sem þingmannanefnd leggur til að verði ákærðir. Þar kemur fram að meirihluti nefndarinnar telur lögin um ráðherraábyrgð og landsdóm standast 70. grein stjórnarskrárinnar.

„Við fengum mjög ákveðin atriði til að taka afstöðu til og höfum skilað henni,“ segir Róbert Marshall, formaður allsherjarnefndar. Hann segir þessa umsögn þó ekki breyta sinni persónulegu afstöðu. „Ég byggi hana á öðrum, efnislegum atriðum í þingsályktunartillögum frá þingmannanefndinni og því sem kom fram í rannsóknarskýrslunni sjálfri.“

Skiluðu séráliti

Róbert segir samt til bóta að allsherjarnefndin sé búin að fjalla um þessi efnisatriði málsins. „Nú geta þingmenn tekið afstöðu til þeirra en eyða ekki of miklum tíma í formið því ég held að það sé búið að leiða það með fullnægjandi hætti í ljós að það stenst.“

Birgir Ármannsson og Ólöf Nordal, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í allsherjarnefndinni, skiluðu séráliti.

„Það er okkar viðhorf að nauðsynlegt sé að horfa á samspil laganna um ráðherraábyrgð og landsdóm annars vegar, og 70. greinar stjórnarskrárinnar og mannréttindaákvæða hins vegar,“ segir Birgir um innihald sérálitsins.

„Í ljósi framkvæmdarinnar í þeim málum sem eru nú til umfjöllunar á Alþingi er niðurstaða okkar að sú réttarvernd sem ráðherrunum fyrrverandi á að vera veitt, samkvæmt stjórnarskránni og Mannréttindasáttmála Evrópu, hafi í veigamiklum atriðum verið fyrir borð borin í þessu máli. Ég get hins vegar tekið undir með Róberti að álitamálin um það hvort Alþingi eigi að ákæra í þessu máli eru mun fleiri en nákvæmlega þau sem snúa að stjórnarskránni. Þar þarf m.a. að horfa til þess hvort skilyrði um ásetning eða stórfellt gáleysi ráðherranna fyrrverandi hafi verið uppfyllt. Einnig hvort refsiheimildirnar, sem ákærutillögurnar byggjast á, eru nægilega skýrar til að forsvaranlegt sé að ákæra. Og hvort hægt sé að heimfæra hin meintu athafnaleysisbrot til viðkomandi refsiákvæða,“ segir Birgir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert