Íslenskir fossar á uppboði

Listaverk úr eigu bandaríska bankans Lehman Brothers voru seld á uppboði hjá Sotheby´s í New York í gær fyrir fyrir rúmar 12 milljónir dala, nærri 1,4 milljarða króna.

Meðal annars seldist verk eftir Ólaf Elíasson, myndir af íslenskum fossum, fyrir nærri hálfa milljón dala en áætlað söluverð var 60-80 þúsund dalir. Um er að ræða verkið The Waterfall Series frá 1996, 50 ljósmyndir af fossum sem hver er  38,1 x 26 cm.

Mun andvirði sölunnar renna til kröfuhafa bankans en gjaldþrot hans í september 2008 er almennt talið hafa markað upphaf fjármálakreppunnar.

Alls voru 142 verk til sölu og seldust flest þeirra, mörg langt yfir matsverði. Þeirra á meðal var málverkið Án titils 1 eftir eþýópísku listakonuna Julie Mehretu. Það var metið á 6-800 þúsund dali en seldir fyrir rúma milljón dala.

Það vakti hins vegar athygli, að verk eftir Bretann Damien Hirst, sem var metið á rúma milljón dala seldist ekki. 

Annað uppboð á listaverkum Lehman Brothers mun fara fram í Lundúnum á miðvikudag og þar verða meðal annars seld verk eftir Lucian Freud og Gary Hume.

Upplýsingar um fossamyndir Ólafs á vef Sotheby's

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert