Meirihluti þeirra, sem tóku þátt í könnun Gallup fyrir Ríkisútvarpið vilja að fjórir fyrrum ráðherrar verði ákærðir fyrir landsdómi. Fram kom í fréttum Útvarpsins að þeir sem eru tekjulægri vilja frekar ákæra en hinir tekjuhærri og einnig vilja yngri kjósendur frekar ákæra en hinir eldri.
Úrtakið í könnuninni, sem var netkönnun, gerð 16.-23. september, var 1200 manns en svarhlutfall var 65%.
Fram kom að 64% allra svarenda vilja að Árni M. Mathiesen verði ákærður, 61% vill að Geir H. Haarde verði ákærður, 55% að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir verði ákærð og 45% að Björgvin G. Sigurðsson verði ákærður.
Afstaða þeirra, sem svöruðu, fór mjög eftir því hvaða flokka þeir styðja. Þannig sögðust 30% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokks vilja að Geir verði ákærður, 26% sögðust vilja að Árni verði ákærður, 33% vildu að Ingibjörg verði ákærð og 31% sögðust vilja að Björgvin verði ákærður.
69% kjósenda Samfylkingarinnar segjast vilja að Árni verði ákærður, 65% vilja ákæra Geir, 45% Ingibjörgu og 31% vilja ákæra Björgvin.
Um 2/3 kjósenda Framsóknarflokks vill að Geir, Árni og Ingibjörg verði ákærð en um helmingur þeirra vill ákæra Björgvin.
Um 84% kjósenda Vinstri grænna sögðust vilja að Árni verði ákærður, 82% vilja að Geir verði ákærður, 76% sögðust vilja að Ingibjörg verði ákærð og 61% að Björgvin sæti ákæru.