Synti 40 metra í þungum straumi

Miklir vatnavextir hafa verið á Suður- og Suðausturlandi. Þverá sem …
Miklir vatnavextir hafa verið á Suður- og Suðausturlandi. Þverá sem fellur í Geirlandsá, gróf í nótt úr vegi inn í sveitina eins og sést á myndinni. mynd/Árni Ingvar Bjarnason

„Það var bara tekið baksundið á þetta,“ segir Sigurður Daði Friðriksson björgunarsveitarmaður sem synti 40 metra í þungum straumi til þriggja manna sem voru fastir í bíl á eyri í Núpsvötnum í gærkvöldi. Útkallið barst um kvöldmatarleytið en björgunarstörfum lauk ekki fyrr en snemma í morgun.

„Við skoðuðum öll vöð sem við þekktum í ánni en þau voru öll ómöguleg. Okkur grunaði að eyrin myndi fljóta á kaf því það var mikil rigning. Við byrjuðum á að reyna að vaða til þeirra en það var of mikill straumur. Við vorum búin að kalla í jarðýtu og fluglínutæki en þá getum við skotið línu yfir eyrina með rakettu en við notuðum hana aldrei því mig langaði að prufa að synda, athuga hvort ég hefði það ekki. Við gerðum okkur klár í það en það var bara tilviljun að það var ég en ekki einhver annar sem synti yfir,“ segir Sigurður Daði en alls tóku 18 manns þátt í björgunarstörfunum.

„Það var mikill straumur náttúrlega og ég þurfti að fara ofarlega út í því mig rak hratt. Ég náði ákkúrat í land neðst á eyrinni og hefði því ekki mátt fara mikið neðar út í,“ segir Sigurður en að hans sögn voru mennirnir sprækir þegar Sigurður náði til þeirra. „Ég tek línuna yfir og þeir taka í hana með mér og við strekkjum hana yfir eyrina frá landi. Það var bundinn bátur í þá línu og aðra sem er í landi. Svo drógum við bátinn varlega yfir. Ég setti mennina í björgunarvesti og hjálma og skellti þeim í bátinn. Svo vorum við dregnir yfir.“

Sigurður og mennirnir voru komnir í land milli kl. 22 og 23 en Sigurður og fleiri björgunarsveitarmenn voru ekki komnir til síns heima fyrr en rúmlega 6 í morgun þar sem langan tíma tók að koma jarðýtunni á staðinn og losa bílinn.

Sigurður Daði Friðriksson.
Sigurður Daði Friðriksson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert