Brutust grímuklæddir inn í verslun

Þjófar brutust inn í ferðamannaverslunina við Geysi í Haukadal klukkan 2:40 aðfaranótt laugardags.  Að sögn lögreglunnar á Selfossi voru þjófarnir þrír og huldu andlit sín. 

Þeir létu greipar sópa og höfðu á brott með sér talsvert magn af verðmætum útvistarfatnaði.  Þjófarnir létu ekki þar við sitja heldur komu aftur tæpri klukkustund síðar og tóku meira af fatnaði sem að megninu til er frá 66° Norður. 

Innbrotið uppgötvaðist þegar starfsfólk kom til vinnu á laugardagsmorguninn.  Málið er í rannsókn og biður lögreglan alla þá sem veitt geta upplýsingar um mannaferðir á fyrrgreindum tíma við eða á Geysissvæðinu að hafa samband í við lögregluna á Selfossi í síma 480 1010. 

Í vikunni var tilkynnt um innbrot í fimm sumarbústaði í og við Hestvík í Grafningi.  Lögreglan segir, að þjófarnir virðist fyrst og fremst hafa stolið rafmagnstækjum eins og sjónvarpstækjum, hljómflutningstækjum og eldhústækjum. 

Þá var brotist inn í veiðihús við Hliðarvatn í Selvogi í liðinni viku og þaðan stolið nýlegu sófasetti.  Fyrr á þessu ári var brotist inn í þetta sama hús og sófasetti stolið.   Búi einhver yfir upplýsingum varðandi þessi innbrot er sá beðinn að hafa samband við lögreglu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert