ESB lætur hart mæta hörðu

Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins
Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins Reuters

Evrópusambandið ætlar að mæta Íslandi og Færeyjum af hörku vegna einhliða ákvörðunar þessara landa um makríkveiðikvóta. Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins, sagði á blaðamannafundi í Brussel í dag, að framferði ríkjanna tveggja væri óviðunandi.

Gagnrýndi hún harkalega ákvarðanir beggja ríkja um að auka einhliða kvóta á makríl í ár og sagði framferði þeirra óviðunandi.

„Evrópusambandið og Noregur hefur byggt upp stofninn í norðaustur Atlantshafi. Magnið af makríl sem Íslendingar og Færeyingar hafa tekið úr hafinu í ár er langt umfram það sem þeir hafa veitt áður. Aðgerðir þeirra grafa einnig undan tilraunum okkar eigin fiskiðnaðar til þess að vernda stofninn,“ sagði Damanaki.

Sagðist hún hafa skýrt umboð frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherrum sambandsins, sem nú funda í Brussel, til þess að semja við Íslendinga og Færeyinga.

„Við munum ekki greiða hvaða gjald sem er fyrir samkomulag,“ sagði hún. Ef ósanngjarnar kröfur yrðu settar fram af hálfu landanna tveggja væri sambandið tilbúið til að bregðast við, sérstaklega með tilliti til samninga sambandsins við löndin um veiðar á öðrum fisktegundum.

Damanaki tók fram, að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tengi deilurnar um makrílveiðar ekki við aðildarviðræður Íslands við sambandið.

Dalmanaki ræðir við breska og skoska ráðherra á fundi ESB …
Dalmanaki ræðir við breska og skoska ráðherra á fundi ESB um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál. FRANCOIS LENOIR
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka