1.306 heimili og fyrirtæki voru seld á nauðungaruppboði um land allt frá áramótum fram til 15. september á þessu ári.
Þetta er tala frá embætti umboðsmanns skuldara sem nýlega óskaði eftir upplýsingum um slíkar sölur frá öllum sýslumannsembættunum. Flest voru uppboðin haldin í höfuðborginni, 228 talsins, en athygli vekur að sýslumaðurinn í Keflavík fylgir þar fast á hæla með 224 uppboð. Þykir sú tala veita ágæta vísbendingu um atvinnuástandið á Reykjanesi.
Ásta Sigrún Helgadóttir, umboðsmaður skuldara, óskaði jafnframt eftir upplýsingum um heildarfjölda beiðna um nauðungarsölur en hafði ekki erindi sem erfiði. Ljóst er að enginn veit nákvæmlega hversu margar beiðnir hafa borist sýslumannsembættum, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.