Dómsmála- og mannréttindaráðherra svarar ekki fyrirspurn þingmanns Hreyfingarinnar um nauðungarsölur og vörslusviptingar. Í svari ráðherrans segir, að umbeðinna upplýsinga verði ekki aflað innan þess tímaramma sem gert er ráð fyrir að ráðuneyti hafi til að afla svara né sé til staðar sá starfskraftur sem til þarf í slíka rannsókn.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, spurði dómsmála- og mannréttindaráðherra hversu margar nauðungarsölur og vörslusviptingar, þ.m.t. beinar aðfarargerðir, hafi verið framkvæmdar frá 6. október 2008 á grundvelli verðtryggðra lána sem bundin eru vísitölu neysluverðs, gengistryggðra lána og lána í erlendri mynt.
Bað Þór einnig um sundurliðun eftir helstu lánategundum annars vegar og lánum einstaklinga og fyrirtækja hins vegar.
Í svari Ögmundar Jónassonar, dómsmála- og mannréttindaráðherra, segir að þáverandi dómsmálaráðherra hafi svarað fyrirspurn Ólafar Nordal um fjárnám og nauðungarsölu á síðasta þingi. Í því svari komi fram að finna upplýsingar um að nauðungarsölubeiðnir hafi verið á sjöunda þúsund hvert ár á tímabilinu 2006–2008. „Þar kemur einnig fram að tölvukerfi sýslumannsembættanna gefur ekki kost á að kalla eftir upplýsingum með ítarlegum hætti,“ segir í svari ráðherra.
Einnig segir að svör við fyrirspurn Þórs liggi ekki fyrir enda ekkert skráð um um vaxtakjör og verðtryggingu þegar nauðungarsölumál eru stofnuð. Til að komast að niðurstöðum þyrftu starfsmenn sýslumannsembættanna að skoða veðskuldir á bak við öll nauðungarsölumál á tveggja ára tímabili.
Ráðherrann bendir á að á bak við hvert mál liggi gjarnan nokkrar beiðnir um nauðungarsölu á viðkomandi eign sem styðjast við mismunandi lánasamninga eða annars konar kröfuréttindi. „Þyrfti því að greina þúsundir eða tugi þúsunda veðskjala. Slík greining tæki allnokkra mannmánuði eða jafnvel ársverk. Ljóst er því að umbeðinna upplýsinga verður ekki aflað innan þess tímaramma sem gert er ráð fyrir að ráðuneyti hafi til að afla svara við fyrirspurnum þingsins né er til staðar sá starfskraftur sem til þarf í slíka rannsókn.“