Hefur ekki sannfæringu fyrir ákærum

Guðmundur Steingrímsson í ræðustóli Alþingis.
Guðmundur Steingrímsson í ræðustóli Alþingis. mbl.is/Heiðar

Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði á Alþingi í dag að hann hefði ekki sannfæringu fyrir réttmæti þess að ákæra fyrrum ráðherra fyrir landsdómi.

Guðmundur sagðist vera reiður yfir ýmsu, sem hefði verið gert í stjórnmálum á undanförnum árum. En það hefði aldrei komið upp spurning í hans huga um að það ætti að fara með þá stjórnmálamenn fyrir landsdóm, sem bæru ábyrgð á þeirri pólitík.

„Það sem stjórnar minni afstöðu er að ég vil ekki fara með slæma pólitík, ámælisverða pólitík, fyrir landsdóm," sagði Guðmundur.  Sagði hann, að rannsóknarskýrsla Alþingis nægði sér.

Þá sagðist hann hafa skoðað hvernig Alþingi hefði hagað sér í aðdraganda hrunsins og velti upp þeirri spurningu hvort Alþingi hefði notað eftirlits- og aðhaldsvald sitt. Fundargerðir efnahags- og viðskiptanefndar þingsins á þessu tímabili beri það með sér að ekkert hafi verið rætt um stöðu bankana fyrr en í lok ágúst 2008, að fjallað var um gjaldþrot og vanskil og um sparisjóðina.

„Það var ekki einu sinni ein formleg fyrirspurn, munnleg eða skrifleg, um stöðu bankanna,"  sagði Guðmundur og sagðist ekki sjá að Alþingi hefði rækt aðhaldshlutverk sitt í aðdraganda bankahrunsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka