Samtök, sem nefna sig Alþingi götunnar, heiðruðu í dag Atla Gíslason, formann þingmannanefndarinnar sem fjallað hefur um rannsóknarskýrslu Alþingis. Segir í tilkynningu frá samtökunum að þrátt fyrir mikið mótlæti og andstöðu ýmissa þingmanna og ráðherra hafi Atli staðið fastur fyrir og stýrt störfum nefndarinnar, svo sómi sé að.
„Íslenska þjóðin þarf að fá umræðu um þessi mál, því fari svo að mál fyrrverandi ráðherra verði ekki tekin fyrir er hætt við siðferðisbresti í íslensku samfélagi. Bankamenn eru til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara. Ráðherrar fyrri stjórnar eiga ekki að geta hlaupist undan ábyrgð sinni í skjóli kunningjasamfélagsins.
Séu þeir saklausir og ekki næg ástæða til ákæru frá landsdómi, þá mun það koma fram og því hafa þeir ekkert að óttast, en komi annað fram, er nauðsynlegt að það verði skýrt í hverju ábyrgðin felst svo við getum í framtíðinni reitt okkur á stjórnkerfið og treyst því að lýðveldið standist og slíkt gerist ekki aftur," segir í tilkynningu frá Alþingi götunnar.