Sólveig Anna Jónsdóttir var kjörin formaður Vinstri grænna í Reykjavík fyrir skömmu með 113 atkvæðum. Mótframbjóðandi hennar, Andrés Ingi Jónsson hlaut 57 atkvæði. Sólveig er ein níumenninganna sem hafa verið ákærðir fyrir árás á Alþingi.
Andrés Ingi var áður aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra í tíð Álfheiðar Ingadóttur og var hann boðinn fram til formanns félagsins af uppstillingarnefnd. Þegar kjörstjórn hafði borið upp tillögu sína að formanni og stjórn á fundinum steig Kolbrún Halldórsdóttir upp í pontu og lagði til að Sólveig yrði boðin fram til formanns gegn Andrési. Sólveig tók við tillögunni og gengið var til kjörs á þessum fjölmennasta aðalfundi félagsins til þessa.
Þetta er í fyrsta sinn sem tvö framboð eru boðin fram til formanns félagsins.
Í stjórn ásamt Sólveigu voru kjörin Brynja Björg Halldórsdóttir formaður Ísafoldar, félags ungs fólks gegn ESB aðild, Ellen Kristjánsdóttir söngkona, Garðar Mýrdal, Hermann Valsson, Friðrik Dagur Arnarson og Birna Magnúsdóttir.