Vill rannsókn á einkavæðingu banka

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. mbl.is/Ómar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur lagt fram tillögu á Alþingi um að fram fari rannsókn á einkavæðingu Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands árið 2002.

Tillaga Sigmundar Davíðs er breytingartillaga við þingsályktunartillögu þingmannanefndarinnar, sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.  Þingmannanefndin ræddi hvort hún ætti að leggja til að slík rannsókn færi fram en tillaga um það féll á jöfnum atkvæðum.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, og átta aðrir þingmenn Samfylkingarinnar og VG, hafa einnig lagt fram tillögu um að einkavæðing bankanna verði rannsökuð sérstaklega.

Sigmundur Davíð leggur einnig til, að  rannsökuð verði sala einstakra félaga og eignarhluta í félögum af hendi slitastjórna og skilanefnda Landsbanka Íslands og Kaupþings banka og KBI hf., nú Arion banka og NBI hf. Þannig skuli upplýst hvaða verðmætamat lá til grundvallar, hvernig staðið var að vali á kaupendum, hvernig kaupin voru fjármögnuð af kaupendum og hvaða seljendaáhættur fylgdu sölunni.

Þá leggur Sigmundur Davíð til að fram fari rannsókn á  stofnfjáraukningu sparisjóða eftir að ný lög tóku gildi 2004. Einnig verði styrkveitingar sparisjóða til stjórnmálamanna rannsakaðar frá árinu 2004. Gert verði opinbert hvort einstakir stjórnmálamenn fengu styrki frá sparisjóðunum, beint í eigin nafni eða óbeint í nafni hluta- eða einkahlutafélags. 

Tillaga Sigmundar Davíðs

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert