Áfengi fannst í bifreiðinni

Harður árekstur var við Bústaðarveg snemma í morgun en bifreið, sem ekið var í austurátt lenti í árekstri við strætisvagn á mótum Bústaðarvegar og Háaleitisbrautar. Einn farþegi strætisvagnsins var fluttur á slysadeild en meiðsli hans eru ekki talin alvarleg. Áreksturinn var þó það harður að loka þurfti Bústaðarvegi og Háaleitisbraut um tíma vegna slyssins.

Tildrög þess voru með þeim hætti að Tollgæslan veitti bifreiðinni eftirför, en grunur lék á að í henni fyndist nokkurt magn  áfengis sem smyglað var af svæði tollgæslunnar við Sundahöfn. Bifreiðin sinnti ekki stöðvunarmerkjum tollgæslunnar. Hún mun þó hafa óskað eftir aðstoð lögreglu en engin lögreglubifreið var til reiðu til að sinna kallinu.

 Samkvæmt heimildum Mbl sjónvarps fannst nokkurt magn áfengis í bifreiðinni.

Frétt á vef Tollstjórans: Á sjöunda tímanum í morgun veitti tollgæslan jeppabifreið eftirför frá Sundahöfn í Reykjavík.

Tollverðir reyndu ítrekað að fá ökumanninn til þess að stöðva bifreiðina með merkjagjöf en án árangurs. Haft var samband við lögreglu sem kom strax á vettvang.

Ökumaður jeppabifreiðarinnar  missti stjórn á bifreiðinni á gatnamótum Bústaðarvegar og Háaleitisbrautar með þeim afleiðingum að hann ók yfir umferðareyju og í veg fyrir strætisvagn.

Maðurinn sem er skipverji á vöruflutningaskipi Eimskips var að koma út af athafnasvæði skipafélagsins þegar eftirförin hófst. Tollstjóri hafði samband við Eimskip og var tjáð að tekið yrði á málinu í samvinnu við tollgæsluna.

Við leit í bifreiðinni fundu tollverðir talsvert magn af smyglvarningi, en ekki er hægt að greina frá magni á þessari stundu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert