Karlmaður á þrítugsaldri var í gær dæmdur í Héraðsdómi Reykjaness átta mánaða fangelsi, þar af sex mánuði skilorðsbundið fyrir líkamsárás í desember 2008. Hann var jafnframt dæmdur til að greiða fórnarlambinu 600 þúsund í miskabætur og sakarkostnað.
Var maðurinn dæmdur fyrir að hafa skellt höfði annars manns í gegnum glerrúðu hársnyrtistofu í miðbænum með þeim afleiðingum að hann hlaut 4 skurði á höfði og líkama sem sauma þurfti saman með samtals 15 sporum, þar af einn langan skurð á höfði framanverðu sem í var lítil slagæð sem blæddi verulega úr og loka þurfti með saumum.
Það sem fórnarlambið hafði sér til sakar unnið var að hugga unnustu árásarmannsins sem var grátandi undan unnustanum. Síðar um nóttina var lögregla kvödd að heimili þeirra vegna ósættis milli þeirra og fór lögregla með hana út af heimilinu og ók henni heim til foreldra hennar.
Fyrir dómi báru bæði árásarmaðurinn og unnustan að þau muni hvorki hvar þau voru aðfaranótt 7. desember 2008 né með hverjum þau voru. Hinn dæmdi sagðist þó halda að hann hefði verið með unnustu sinni. Hann kannaðist ekki við að hafa verið niðri í bæ að skemmta sér þessa nótt og unnustan kannaðist ekki við að hafa verið að tala við þann sem varð fyrir árásinni skömmu áður en ráðist var á hann.
Þegar dagbókarfærsla lögreglunnar varðandi tilkynningu um ósætti þeirra á milli á heimili þeirra könnuðust þau þó bæði við að ósætti hefði komið upp á milli þeirra þessa sömu nótt á heimili þeirra og að lögregla hefði ekið henni heim til foreldra hennar.
Þrátt fyrir að það gat hvorugt þeirra rifjað upp hvar þau voru eða hvað þau höfðu fyrir stafni þessa sömu nótt fram að því að ósætti kom upp á milli þeirra.