Héraðsdómur Reykjavíkur féllst ekki á kröfu hjóna sem gerðu kröfu í bú Frjálsa fjárfestingabankans upp á tæpar fjórtán milljónir króna vegna hækkunar á húsnæðislánum í erlendri mynt. Hins vegar var fallist á að lánssamningar sem þau höfðu gert við bankann í erlendri mynt væri um lán í íslenskum krónum og ákvæði um gengistryggingu því ólögmæt.
Er þetta í takt við niðurstöðu héraðsdóms og Hæstaréttar í svo kölluðum bílalánsmálum.
Fjárkröfum hjónanna var þó hafnað, þar sem þær studdust við greiðsluáætlanir. Í ljósi fordæmis Hæstaréttar nú fyrr í mánuðinum var heldur ekki unnt að unnt að fallast á aðrar kröfur þeirra. Viðurkennd var hins vegar krafa þrotabús Frjálsa fjárfestingarbankans um að lánin bæru vexti og skulu þeir á hverjum tíma vera jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum. Málskostnaður var felldur niður í málinu.