Fengu ekki inn á Gasa

Óskar Þór Lárusson skósmiður, Anton Jóhannsson stoðtækjafræðingur og Johann Snyders, …
Óskar Þór Lárusson skósmiður, Anton Jóhannsson stoðtækjafræðingur og Johann Snyders, stoðtækjafræðingur frá Suður-Afríku, nota tímann til þess að skoða sig um í Jerúsalem. Hér eru þeir við Grátmúrinn. mbl.is

Íslensku stoðtækja­smiðirn­ir í Ísra­el fengu ekki að fara inn á Gasa í morg­un eins og til stóð. Leyfi sem þeir höfðu til að kom­ast þar inn höfðu runnið út og munu þeir því halda heim á leið á morg­un. Efnið í gervi­fæt­urna er þó komið í geymslu og bíður þar til næsta ferð verður skipu­lögð.

„Vissu­lega eru þetta mik­il von­brigði. Það er fer­legt að hafa komið alla þessa leið án þess að sjá fólk labba á þess­um fót­um,“ seg­ir Óskar Þór Lárus­son­ar, skósmiður.

Hann seg­ir að þeir hafi eytt þeir nær öll­um deg­in­um við landa­mæra­stöðina í Erez að reyna að fá leyfi til að fara inn á Gasa. Her­menn­irn­ir þar hafi gert sitt besta til að aðstoða þá en á end­an­um hafi leyfi ekki feng­ist.

„Það sem við höfðum í hönd­un­um voru tölvu­póst­sam­skipti við liðsfor­ingja á landa­mæra­stöðinni. Við vor­um með leyfi frá því í des­em­ber í fyrra fyr­ir mann­skap­inn en eft­ir að það fékkst var okk­ur sagt að þyrfti annað leyfi til að fara með efnið til smíði stoðtækj­anna. Það tók heil­l­ang­an tíma og í millitíðinni runnu út leyf­in fyr­ir mann­skap­inn til að kom­ast inn á Gasa,“ seg­ir Óskar Þór.

Þegar sótt hafi verið um leyfi fyr­ir nýj­an mann fyr­ir stuttu hafi þeir ekki verið látn­ir vita af því að leyfi hinna væru runn­in út þrátt fyr­ir að Ísra­el­un­um hafi verið full­kunn­ugt um fyr­ir­ætlan­ir stoðtækja­smiðanna.

Næsta opn­un landa­mæra­stöðvar­inn­ar er ekki fyrr en á föstu­dags­morg­un en vegna annarra starfa verði stoðtækja­smiðirn­ir frá að hverfa. Þeir fljúga heim á leið á morg­un.

„Við erum með menn frá Svíþjóð og S-Afr­íku sem eru sjálf­stætt starf­andi og þurfa að sinna sín­um rekstri. Við lít­um samt á þetta sem ákveðinn sig­ur því nú er efnið komið inn í landið og komið í geymslu í Jaffa nærri höfuðborg­inni. Þar fáum við að geyma það þar til hægt er að setja sam­an aðra ferð,“ seg­ir Óskar Þór.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert