Fengu ekki inn á Gasa

Óskar Þór Lárusson skósmiður, Anton Jóhannsson stoðtækjafræðingur og Johann Snyders, …
Óskar Þór Lárusson skósmiður, Anton Jóhannsson stoðtækjafræðingur og Johann Snyders, stoðtækjafræðingur frá Suður-Afríku, nota tímann til þess að skoða sig um í Jerúsalem. Hér eru þeir við Grátmúrinn. mbl.is

Íslensku stoðtækjasmiðirnir í Ísrael fengu ekki að fara inn á Gasa í morgun eins og til stóð. Leyfi sem þeir höfðu til að komast þar inn höfðu runnið út og munu þeir því halda heim á leið á morgun. Efnið í gervifæturna er þó komið í geymslu og bíður þar til næsta ferð verður skipulögð.

„Vissulega eru þetta mikil vonbrigði. Það er ferlegt að hafa komið alla þessa leið án þess að sjá fólk labba á þessum fótum,“ segir Óskar Þór Lárussonar, skósmiður.

Hann segir að þeir hafi eytt þeir nær öllum deginum við landamærastöðina í Erez að reyna að fá leyfi til að fara inn á Gasa. Hermennirnir þar hafi gert sitt besta til að aðstoða þá en á endanum hafi leyfi ekki fengist.

„Það sem við höfðum í höndunum voru tölvupóstsamskipti við liðsforingja á landamærastöðinni. Við vorum með leyfi frá því í desember í fyrra fyrir mannskapinn en eftir að það fékkst var okkur sagt að þyrfti annað leyfi til að fara með efnið til smíði stoðtækjanna. Það tók heillangan tíma og í millitíðinni runnu út leyfin fyrir mannskapinn til að komast inn á Gasa,“ segir Óskar Þór.

Þegar sótt hafi verið um leyfi fyrir nýjan mann fyrir stuttu hafi þeir ekki verið látnir vita af því að leyfi hinna væru runnin út þrátt fyrir að Ísraelunum hafi verið fullkunnugt um fyrirætlanir stoðtækjasmiðanna.

Næsta opnun landamærastöðvarinnar er ekki fyrr en á föstudagsmorgun en vegna annarra starfa verði stoðtækjasmiðirnir frá að hverfa. Þeir fljúga heim á leið á morgun.

„Við erum með menn frá Svíþjóð og S-Afríku sem eru sjálfstætt starfandi og þurfa að sinna sínum rekstri. Við lítum samt á þetta sem ákveðinn sigur því nú er efnið komið inn í landið og komið í geymslu í Jaffa nærri höfuðborginni. Þar fáum við að geyma það þar til hægt er að setja saman aðra ferð,“ segir Óskar Þór.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert