Fimmtán manna landsdómur kallaður saman

Fimm reynslumestu hæstaréttardómararnir sitja í landsdómi.
Fimm reynslumestu hæstaréttardómararnir sitja í landsdómi. mbl.is/GSH

Ómögulegt er að segja til um hversu langan tíma málsmeðferð í landsdómi tekur vegna ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra fyrir brot á lögum um ráðherraábyrgð í aðdraganda banka- og efnahagshrunsins árið 2008. Þó er ljóst að málsmeðferð fyrir landsdómi og rannsókn málsins muni taka drjúgan tíma, einhverja mánuði hið minnsta, en líklega mun lengur.

Í landsdómi sitja 15 manns, þ. á m. fimm reynslumestu hæstaréttardómararnir. Á meðan þeir sitja réttarhöld í landsdómi geta þeir ekki sinnt öðrum málum og því blasir við að störf réttarins munu eitthvað tefjast.

Alþingi verður jafnframt að kjósa saksóknara til að sækja málið, og kjósa fimm manna þingnefnd, saksóknaranefnd, sem á að fylgjast með málinu og vera saksóknara til aðstoðar.

Rannsaka þarf málið á ný

Skilgreining á hlutverki saksóknara Alþingis er að ýmsu leyti ólík þeim fyrirmælum sem saksóknari í hefðbundnu sakamáli fær í lögum um sakamál. Það er t.a.m. ekki saksóknari Alþingis sem ákveður hvernig ákæran hljóðar heldur Alþingi. Alþingi verður að tilgreina nákvæmlega hver kæruatriðin eru og er sókn málsins bundin við þau.

Í lögum um landsdóm er mælt fyrir um skyldu saksóknara Alþingis til að leita allra fáanlegra sannana fyrir kæruatriðum og gera tillögur til landsdóms um „viðeigandi ráðstafanir til að leiða hið sanna í ljós“. Það sé síðan hlutverk verjanda að draga fram allt sem verða megi hinum ákærða til sýknu eða hagsbóta. Í lögum um sakamál er á hinn bóginn tekið fram að saksóknari verði að horfa bæði til atriða sem horfa til sýknu og sektar.

Þá þarf að rannsaka málið aftur, að einhverju leyti, en óljóst er hversu viðamikil sú rannsókn þarf að vera. Í það minnsta verður að taka skýrslu af Geir og verður hann einnig spurðir út í sakarefnið fyrir dómnum. Bæði Geir og saksóknari geta kallað til þau vitni sem þeir kjósa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert