Þingmenn Hreyfingarinnar segja, að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar á Alþingi í dag beri keim af samtryggingu og klækjapólitík þar sem flokkspólitískir hagsmunir ráði för.
„Flokkspólitísk yfirstétt sló skjaldborg um sjálfa sig sem hélt í þremur tilfellum af fjórum. Þetta er niðurstaða sem Hreyfingin varaði ítrekað við þegar Alþingi ákvað að fara þessa leið en talaði fyrir daufum eyrum þings og þjóðar," segir í yfirlýsingu frá þingmönnunum.
Þar segir, að sitjandi þing hafi nú staðfest að því sé fyrirmunað að gera upp hrunið og Alþingi hafi brugðist þjóðinni á ögurstundu. Þegar svo háttar til eigi almenningur skýlausan rétt á að segja sinn hug. Þess vegna krefjist þingmenn Hreyfingarinnar þess að þing verði tafarlaust rofið og að boðað verði til alþingiskosninga.