Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld að hún hefði ekki veitt Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, þáverandi utanríkisráðherra, leyfi til að undirrita yfirlýsingu til norrænna seðlabanka í maí 2008.
Ingibjörg Sólrún sagði í greinargerð, sem hún sendi þingmönnum í síðustu viku, að hún hefði skrifað undir yfirlýsinguna þar sem Jóhanna hefði verið farin af fundi. „Ég skrifaði undir þar sem málefni Íbúðalánasjóðs heyrðu undir félagsmálaráðherra Samfylkingarinnar og ég hafði gengið úr skugga um að ráðherrann var samþykk því sem í yfirlýsingunni fólst," sagði Ingibjörg Sólrún í greinargerðinni.
Jóhanna sagði í Kastljósinu, að það hefði aldrei komið til greina og aldrei til tals, að hún skrifaði undir þessa yfirlýsingu. Yfirlýsingin hefði snert mörg önnur viðfangsefni en Íbúðalánasjóð.