Kerfið brýtur niður fólk

Helga Björk gagnrýnir hversu flókið bótakerfið er.
Helga Björk gagnrýnir hversu flókið bótakerfið er. mbl.is/Ómar

Al­manna­trygg­inga­kerfið er flókið og dreg­ur orku og kjark úr þeim sem þurfa að leita á náðir þess. Þetta er skoðun Helgu Bjark­ar Grétu­dótt­ur, eins tals­manna Bót­ar, aðgerðahóps um bætt sam­fé­lag, sem kveðst hafa spurn­ir af því að ótti við upp­sagn­ir sér­fræðinga eigi þátt í að viðhalda flækj­u­stig­inu.

Sam­tök­in efndu til borg­ar­a­fund­ar í Ráðhúsi Reykja­vík­ur 8. sept­em­ber síðastliðinn og var bekk­ur­inn þétt set­inn þegar ræðumenn tóku til máls.

Aðspurð um viðbrögðin við fund­in­um seg­ir Helga Björk að þau hafi verið mik­il og að stefn­an sé sett á að efna til fleiri borg­ar­a­funda víðsveg­ar um landið, þar með talið í Kópa­vogi á næst­unni.

„Bolt­inn er hjá Kópa­vogs­bæ. Ég bíð eft­ir svari frá bæn­um.“

Útreik­ing­ar hljóti að liggja fyr­ir

Helga Björk seg­ir fund­inn hafa vakið mikla at­hygli. 

„Það hef­ur skap­ast mik­il umræða um fá­tækt í sam­fé­lag­inu. Við vilj­um að lág­marks­fram­færsla verði end­ur­skoðuð. Þess­ir út­reikn­ing­ar hljóta að liggja fyr­ir rík­is­stjórn­inni,“ seg­ir Helga Björk og vík­ur að flækj­u­stig­inu.

„Það hlýt­ur að vera til ein­fald­ara trygg­inga­kerfi. Okk­ur er sagt að kerfið sé til­búið í skúff­um í fé­lags­málaráðuneyt­inu. Við vit­um hvað það er dýrt að vera stöðugt að end­ur­reikna skerðing­ar hjá ör­yrkj­um og líf­eyr­isþegum.

Okk­ur skilst að slíkt kerfi sé til full­mótað í ráðuneyt­inu en að það sé geymt í skúffu. Ef kerfið verður ein­faldað þýðir það ein­fald­lega að marg­ir missa vinn­una. Þetta er okk­ur sagt. Stór hluti af þessu fólki sem vinn­ur að end­urút­reikn­ing­um hjá Trygg­inga­stofn­un og jafn­vel hjá skatt­in­um hef­ur ein­fald­lega svo mikla vinnu af því að vinna við end­urút­reikn­inga.“

Helga Björk held­ur áfram og seg­ir að stjórn­völd hafi gefið upp að kostnaður við breyt­ing­arn­ar myndi verða tölu­verður og að því sé heppi­legra að slá þeim á frest þar til bet­ur ári. Vinna við til­lög­urn­ar hafi haf­ist í tíð Jó­hönnu Sig­urðardótt­ur sem fé­lags­málaráðherra. 

Mun flókn­ara en á Norður­lönd­um

Helga Björk seg­ir ís­lenska al­manna­trygg­inga­kerfið marg­falt flókn­ara en á Norður­lönd­um. 

„Kerfið er svo gríðarlega flókið. Það er ekki svona á Norður­lönd­um. Þar er miklu ein­fald­ara kerfi. Hjá okk­ur er kerfið marg­falt flókn­ara. Ég er ný­kom­inn inn í kerfið. Ég kann ekki á það.

Það sem við ör­yrkj­ar þurf­um er miðlæg­ur upp­lýs­inga­grunn­ur, eða upp­lýs­inga­full­trúi, til að finna út hver rétt­ur okk­ar bótaþega er. Þetta er krafa sem var samþykkt ein­hljóða í lok fund­ar­ins í Ráðhús­inu, að viðstödd­um fé­lags­málaráðherra. Ég gat ekki bet­ur séð en að hann hefði samþykkt til­lög­una.

Maður þarf eig­in­lega að fara í há­skóla­nám til að læra inn á þetta bóta­kerfi Trygg­inga­stofn­un­ar. Þetta er alltof flókið kerfi sem brýt­ur fólk niður,“ seg­ir Helga Björk.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert