Kerfið brýtur niður fólk

Helga Björk gagnrýnir hversu flókið bótakerfið er.
Helga Björk gagnrýnir hversu flókið bótakerfið er. mbl.is/Ómar

Almannatryggingakerfið er flókið og dregur orku og kjark úr þeim sem þurfa að leita á náðir þess. Þetta er skoðun Helgu Bjarkar Grétudóttur, eins talsmanna Bótar, aðgerðahóps um bætt samfélag, sem kveðst hafa spurnir af því að ótti við uppsagnir sérfræðinga eigi þátt í að viðhalda flækjustiginu.

Samtökin efndu til borgarafundar í Ráðhúsi Reykjavíkur 8. september síðastliðinn og var bekkurinn þétt setinn þegar ræðumenn tóku til máls.

Aðspurð um viðbrögðin við fundinum segir Helga Björk að þau hafi verið mikil og að stefnan sé sett á að efna til fleiri borgarafunda víðsvegar um landið, þar með talið í Kópavogi á næstunni.

„Boltinn er hjá Kópavogsbæ. Ég bíð eftir svari frá bænum.“

Útreikingar hljóti að liggja fyrir

Helga Björk segir fundinn hafa vakið mikla athygli. 

„Það hefur skapast mikil umræða um fátækt í samfélaginu. Við viljum að lágmarksframfærsla verði endurskoðuð. Þessir útreikningar hljóta að liggja fyrir ríkisstjórninni,“ segir Helga Björk og víkur að flækjustiginu.

„Það hlýtur að vera til einfaldara tryggingakerfi. Okkur er sagt að kerfið sé tilbúið í skúffum í félagsmálaráðuneytinu. Við vitum hvað það er dýrt að vera stöðugt að endurreikna skerðingar hjá öryrkjum og lífeyrisþegum.

Okkur skilst að slíkt kerfi sé til fullmótað í ráðuneytinu en að það sé geymt í skúffu. Ef kerfið verður einfaldað þýðir það einfaldlega að margir missa vinnuna. Þetta er okkur sagt. Stór hluti af þessu fólki sem vinnur að endurútreikningum hjá Tryggingastofnun og jafnvel hjá skattinum hefur einfaldlega svo mikla vinnu af því að vinna við endurútreikninga.“

Helga Björk heldur áfram og segir að stjórnvöld hafi gefið upp að kostnaður við breytingarnar myndi verða töluverður og að því sé heppilegra að slá þeim á frest þar til betur ári. Vinna við tillögurnar hafi hafist í tíð Jóhönnu Sigurðardóttur sem félagsmálaráðherra. 

Mun flóknara en á Norðurlöndum

Helga Björk segir íslenska almannatryggingakerfið margfalt flóknara en á Norðurlöndum. 

„Kerfið er svo gríðarlega flókið. Það er ekki svona á Norðurlöndum. Þar er miklu einfaldara kerfi. Hjá okkur er kerfið margfalt flóknara. Ég er nýkominn inn í kerfið. Ég kann ekki á það.

Það sem við öryrkjar þurfum er miðlægur upplýsingagrunnur, eða upplýsingafulltrúi, til að finna út hver réttur okkar bótaþega er. Þetta er krafa sem var samþykkt einhljóða í lok fundarins í Ráðhúsinu, að viðstöddum félagsmálaráðherra. Ég gat ekki betur séð en að hann hefði samþykkt tillöguna.

Maður þarf eiginlega að fara í háskólanám til að læra inn á þetta bótakerfi Tryggingastofnunar. Þetta er alltof flókið kerfi sem brýtur fólk niður,“ segir Helga Björk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka