Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri grænna, sagði á Alþingi, að það væri landsdómur, sem dæmdi í málum ráðherra en ekki Alþingi. Ákvörðun um að ákæra ekki ráðherra væri hins vegar dómur Alþingis um sýknu.
„Ákvörðun um málshöfðun er ekki dómur. Það er ekki hlutverk okkar hér að dæma. Það er hlutverk óháðs og óvilhalls dómstóls og það gildir að sjálfsögðu sú regla íslensks réttarfars, að enginn er sekur nema sekt hans sé sönnuð. Réttarstaða þeirra, sem hér eiga hlut að máli er tryggð," sagði Árni í umræðum um þingsályktunartillögur um málshöfðun gegn ráðherrum.
„Ákvörðun Alþingis um að höfða ekki mál er hins vegar dómur. Í slíkri ákvörðun felst dómur Alþingis um sýknu. Í því felst mikið pólitískt vald, pólitískt dómsvald. Þar er hætta á pólitískri misbeitingu," sagði Árni Þór.