„Þeir mættu við landamærin að Gaza fyrir klukkan átta í morgun. Þegar þeir sýndu pappírana sýna kannaðist enginn við nöfnin þeirra eða númer. Samt var búið að fá leyfi fyrir þá í desember,“ segir Sigrún Þorgeirsdóttir verkefnastjóri um ferð íslensks hóps með gervilimi til Gazastrandarinnar.
„Síðan fór af stað langt ferli en þeir fengu loksins leyfi fyrir efnið [í gervilimi]í maí. Síðan höfum við verið í sambandi [við ísraelsk yfirvöld] til að láta þá vita hvenær við ætlum að fara yfir landamærin, nú síðast símleiðis síðasta mánudag. Í morgun sögðu þeir hins vegar að leyfin væru útrunnin.
Ég er búinn að ræða við ræðismann Ísraels og hann er búinn að gera það sem hann getur. Hópurinn segir mér að það sé enginn yfirmaður á staðnum.
Það er frí hjá þeim í dag þannig að það lítur út fyrir að þeir þurfi að snúa til baka,“ segir Sigrún en í hópnum eru Sveinn Rúnar Hauksson, sonur hans Haukur, og gervilimasmiðirnir Johan Snyders, Óskar Þór Lárusson og Anton Jóhannesson.
Félagið greiðir efniskostnaðinn
Aðspurð hvernig greitt sé fyrir ferðina segir Sigrún þá Svein Rúnar og Hauk greiða sjálfa fyrir ferðir og uppihald en að stoðtækjaframleiðandinn Össur Kristinsson og félag hans OK Prosthetics greiði fyrir ferð þremenninganna. Þá kosti félagið Ísland-Palestína straum af efniskostnaði vegna gervilima.
En hvað finnst Sigrúnu um þær skýringar að leyfið sé útrunnið?
„Mér finnst það í rauninni alveg ótrúlegt. Það var veitt leyfi til að fara yfir til Gaza. Það var aldrei rætt um neinn leyfistíma. Þess fyrir utan hef ég verið í stöðugu sambandi við ísraelsk yfirvöld og við höfum undir höndum tölvupósta sem sanna að við fengum leyfi til að fara með efnin yfir til Gaza.
Síðan er ég með tölvupósta frá því í júní þegar við gengum frá fluginu og svo aftur í september til að ítreka að við værum á leiðinni en þá bættum við einum í hópinn. Ég hætti sjálf við að fara út og annar fór í staðinn sem við fengum leyfi fyrir. Þeir vissu að við værum að bæta einum í hópinn og þeir sögðu okkur aldrei að hin leyfin hefðu runnið út,“ segir Sigrún.