Reglur um kattahald teknar fyrir hjá bæjarstjórn

Köttur á óvenjulegum stað.
Köttur á óvenjulegum stað. Ásdís Ásgeirsdóttir

Á fundi sínum síðdegis í dag tekur bæjarstjórn Kópavogs fyrir drög að reglum um kattahald sem bæjarstjóri lagði fram á fundi bæjarráðs fyrir skömmu.

Tilgangur samþykktarinnar er að stuðla að góðri meðferð katta, að þeir séu ekki á flækingi, af þeim stafi hvorki ónæði né tjón og til verndar fuglalífi Kópavogsbæjar.

Í drögunum kemur meðal annars fram að dýralæknir skuli örmerkja alla ketti eldri en fjögurra mánaða og að kettir skuli vera með hálsól þar sem fram komi upplýsingar um heimilisfang og símanúmer eiganda. Á varptíma fugla beri umráðamönnum katta að gera ráðstafanir eins og t.d. að takmarka útiveru þeirra eða hengja á þá bjöllu. Þá sé umráðamanni skylt að láta ormahreinsa kött sinn árlega.

Samkvæmt drögunum eiga kattaeigendur að vera ábyrgir fyrir tjóni sem kettir þeirra valda. Sé köttur ómerktur er heilbrigðiseftirliti heimilt að fanga hann og færi í sérstaka kattageymslu. Sama á við sé ítrekað kvartað undan ágangi katta á tilteknu svæði eða sé köttur á ákveðnum stað í leyfisleysi. Eigandi hefur viku til þess að vitja kattar síns og greiða áfallinn kostnað. Að öðrum kosti er heimilt að ráðstafa honum til nýs eiganda með áföllnum kostnaði eða aflífa hann. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert