Skúli Helgason, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði á Alþingi í dag, að sakargiftir á hendur Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fyrrverandi utanríkisráðherra, í þingsályktunartillögum um málshöfðun gegn ráðherrum, fái ekki staðist.
Þá sagði Skúli, að sakargiftir á hendur Árna M. Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, séu á veikum grunni. Sagðist Skúli ekki telja að sakarefni á hendur Árna nægi til sakfellingar og það sama gilti um Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra.
Skúli sagði, að Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, hefði búið yfir öllum nauðsynlegum upplýsingum til að grípa til aðgerða, svo sem til að minnka umsvif bankanna. Þá hafi hann borið ábyrgð á málefnum Seðlabankans og hefði átt að setja flutning Icesave-reikninganna í dótturfélag á Englandi í forgang innan ríkisstjórnarinnar.
Geir hafi það sér hins vegar til málsbóta, að unnið var að þessum verkefnum í stjórnkerfinu á árinu 2008. Bankakerfið minnkaði þótt það nægði hvergi nærri, og unnið var að flutningi Icesave í dótturfélag þótt það tækist ekki.
Þá vísaði Skúli til þeirrar niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis, að örlög bankakerfisins hafi í raun verið ráðin áður en þeir ráðherrar, sem lagt er til að ákæra, tóku við embættum sínum.