Björgvin kemur aftur inn á þing

Björgvin G. Sigurðsson
Björgvin G. Sigurðsson mbl.is/Kristinn

Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, hefur tekið sæti á Alþingi að nýju. Tillaga um að höfða mál fyrir landsdómi á hendur  Björgvin var felld á Alþingi í gær með 35 atkvæðum gegn 27.

Björgvin varð viðskiptaráðherra eftir kosningarnar 2007 og gegndi því embætti fram í janúar 2009. Hann var síðan kosinn formaður þingflokks Samfylkingarinnar. Rannsóknarnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu í apríl, að Björgvin hefði gerst sekur um vanrækslu í starfi sem viðskiptaráðherra í aðdraganda bankahrunsins.

Í kjölfarið vék Björgvin tímabundið af þingi og vísaði til þess, að fyrir Alþingi lægi það vandasama verk að vinna úr skýrslu rannsóknarnefndar þingsins og meðal þess sem sérstök þingmannanefnd um skýrsluna þarf að vinna úr væru mál sem snéru að ábyrgð ráðherra. Sagðist Björgvin telja, að vera hans í þinginu á þeim tíma gæti truflað þessa vandasömu vinnu og því teldi hann rétt að víkja tímabundið sæti á Alþingi á meðan þingmenn kæmust að niðurstöðu í þessu mikilvæga máli.

Meirihluti þingmannanefndarinnar lagði síðan til að Alþingi höfðaði mál gegn honum fyrir landsdómi. Sú tillaga var felld á Alþingi í gær.

Ekki hefur náðst tal af Björgvin í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka