Einar Kr. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi ráðherra á árunum 2005-2009, segir það sýna forherðingu Samfylkingarinnar þegar þetta lið reyni að þræta og bera af sér loddaraskapinn í fjölmiðlum. Skrif Einars á bloggvef hans tengjast ákvörðun Alþingis í gær að ákæra Geir H. Haarde.
„Síðast liðinn mánudag gengu staflaust um Alþingishúsið sögur um að tilteknir þingmenn Samfylkingarinnar undirbyggju taktískar atkvæðagreiðslur vegna áforma um að ákæra fyrrverandi ráðherra. Ætlunin væri að tryggja að ráðherrar Samfylkingarinnar slyppu en ráðherrar Sjálfstæðisflokksins yrðu ákærðir. Þegar eftir þessu var gengið þverneituðu þingmenn Samfylkingarinnar að nokkuð slíkt væri í pípunum og sögðu hið augljósa; slíkt væri vitaskuld fáránlegt.
En annað kom í ljós í atkvæðagreiðslunum í gær. Þar birtist manni ömurlegur hráskinnsleikur og ótrúlegur loddaraskapur þar sem skrifað var upp um alla veggi. SAMFYLKINGIN SÉR UM SÍNA.
Þetta er augljóst.
Geir H. Haarde verður ákærður og sú ákvörðun tekin með 33 atkvæðum gegn 30. Það vildu 9 þingmenn Samfylkingarinnar.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir verður EKKI ákærð og sú ákvörðun er tekin með 34 atkvæðum gegn 30. Fimm þingmenn Samfylkingarinnar vildu ákæra hana. Fjórir þingmenn flokksins sem vildu ákæra Geir vildu ekki ákæra Ingibjörgu
Árni M. Mathiesen verður EKKI ákærður. Það var ákveðið með 32 atkvæðum gegn 31. Sem sé. Einungis munaði einu atkvæði að hann yrði ákærður. Sjö þingmenn Samfylkingarinnar vildu ákæra Árna. Þar af sex sem ekki vildu ákæra annan hvorn fyrrverandi ráðherra Samfylkingarinnar.
Björgvin G. Sigurðsson verður EKKI ákærður. Þrír þingmenn Samfylkingarinnar vildu ákæra hann, en 9 þeirra Geir og sjö þeirra Árna.
Það þarf ekki vitnanna við. Þetta blasir við hverjum óvitlausum manni.
Nöfn þessara þingmanna sem hafa nú orðið berir að þessum fyrirlitlegu vinnubrögðum, eru skráð óafmáanlega í bækur Alþingis. Þar verða þau varðveitt um aldur og ævi þessu fólki til fullkominnar skammar.
En það sýnir svo forherðinguna, að í fjölmiðlum reynir þetta lið að þræta og bera af sér loddaraskapinn, sem við öllum blasir. Það er sem sagt ekki nóg með að þetta fólk stundi hér ómerkilegan hráskinnaleik sem ekki hefur fyrr sést í minni manna á Alþingi. Heldur er augljóst að það er einbeitt og forhert í athæfi sínu og bætir þannig gráu ofan á svart," skrifar Einar Kr. Guðfinnsson, þingmaður og fyrrverandi ráðherra.