Fréttaskýring: Flókin blanda margþættra átaka hjá VG

Á þessum fundi gerðist mjög margt,“ segir viðmælandi Morgunblaðsins innan Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs sem sat afar fjölmennan aðalfund Vinstri grænna í Reykjavík á mánudagskvöld. Mikil átök eru innan flokksins þessa dagana – líkt og almennt að undanförnu – og kom það bersýnilega í ljós á fundinum. „Þetta var flókin blanda margþættra átaka,“ segir viðmælandi minn.

Líkt og greinir í lögum félagsins gerði uppstillingarnefnd tillögu að nýrri stjórn. Nokkurrar óánægju gætti fyrir fundinn með að tillagan hefði ekki verið gerð opinber auk þess sem einhverjum félagsmönnum þykir fyrirkomulagið ólýðræðislegt. Staðreyndin er hins vegar sú að uppstillingarnefnd hefur átt í fullu fangi með að fá fólk til að sitja í stjórn á undanförnum árum. „En stemningin er greinilega orðin svo mikil að fleiri vilja en komast að og það sýnir kannski best að uppstillingarformið er úr sér gengið fyrir félagið,“ segir einn viðmælenda.

Í uppstillingarnefnd höfðu einnig töluverð áhrif fólk úr „rólegu deildinni“ í VG og töldu einhverjir að þarna væri flokkseigendaklíka að raða inn sínum mönnum.

Þaulskipulögð smalamennska

Eina leiðin til að koma öðrum að er að bera upp tillögu þess efnis á aðalfundinum. Og samkvæmt heimildum blaðamanns var þaulskipulagt hvaða tillögur skyldu upp bornar og fólki smalað á fundinn til að tryggja „rétta“ niðurstöðu. Að sögn eins þeirra sem buðu sig fram en komust ekki inn í stjórn „lítur þetta þó mun dramatískara út en það var í raun og veru“.

Samkvæmt heimildum blaðamanns tóku sig saman harðir andstæðingar Evrópusambandsins, þeir sem töldu sig hafa borið skarðan hlut frá borði í forvali VG fyrir borgarstjórnarkosningarnar síðustu og róttæklingar – og inn í hafi spilað þingflokksátök.

Aðalfundurinn var vísast til sá fjölmennasti sem haldinn hefur verið í félaginu og tæplega tvö hundruð manns mættu. Mikið var um nýskráningar og meðal annars skráði sig einhver fjöldi félaga úr VG í Hafnarfirði og Kópavogi.

Uppstillingarnefnd gerði tillögu um að Andrés Ingi Jónsson, fyrrum aðstoðarmaður Álfheiðar Ingadóttur, yrði formaður VGR. Á fundinum bar Kolbrún Halldórsdóttir hins vegar upp tillögu um að Sólveig Anna Jónsdóttir yrði kosin. Fór svo að Sólveig hafði betur; hlaut 113 atkvæði gegn 57. Á það er þó bent að þó svo munurinn á þeim sé vissulega mikill megi Andrés ágætlega vel við una, enda hafi fundir VGR hingað til þótt fjölsóttir ef til þeirra hafi mætt sextíu manns.

Meðal annarra sem stóðu upp og báru fram tillögur sem hlutu góðar viðtökur á fundinum, voru Hjörleifur Guttormsson, Sólveig Anna, og Hjálmdís Hafsteinsdóttir, eiginkona Þorleifs Gunnlaugssonar, varaborgarfulltrúa VG í borgarstjórn.

 „Ekki blóðugt uppgjör“

„Fyrir mér er þetta ekki að það hafi átt að krossfesta einhvern eða sparka einhverjum. Það fólk sem var þarna langaði til að hleypa nýjum krafti í það sem verið var að gera,“ segir einn þeirra sem kosnir voru í nýja stjórn VGR. „Þetta var ekki hanaslagur og ekki blóðugt uppgjör.“

Annar segir að um sé að ræða gerjun sem eigi sér stað í öllum svona félagasamtökum. Fólk vilji breytingar og los sé á félögum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert