„Þetta er áfall og auðvitað þungbært en ég kvíði því ekki að bera mín mál upp við óháðan og óvilhallan dómstól. Ég treysti því að þetta mál fái réttláta niðurstöðu á endanum.“
Þetta sagði Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, í samtali við Morgunblaðið, um þá niðurstöðu á Alþingi í gær að höfða mál gegn honum fyrir landsdómi fyrir að hafa sýnt af sér alvarlega vanrækslu á starfsskyldum sínum sem forsætisráðherra í aðdraganda bankahrunsins haustið 2008.
Geir segir að það veki furðu að pólitískum brögðum skyldi hafa verið beitt til þess að kalla fram þá niðurstöðu sem varð á Alþingi. Það varpaði ljósi á það hversu pólitísk ákæran væri.
Aðspurður hvort hann telji niðurstöðu málsins á Alþingi kunna að draga pólitískan dilk á eftir sér og hugsanlega setja mark sitt á hugsanlegar stjórnarmyndunarviðræður í framtíðinni segist Geir ekki þora að spá um það. Hann væri sjálfur hættur í pólitík og vildi lítið vera að úttala sig um slíkt.
„En það eru mjög margir sem töldu sig hafa gott vinasamband yfir í Samfylkinguna sem eru núna furðu lostnir yfir því hvernig menn hafa leikið þar tveimur skjöldum, að vísu ekki allir. En það er alveg ljóst að það voru pólitísk undirmál þarna og niðurstaðan er sú að einn maður sætir ákæru og sem betur fer er það ég en ekki einhver annar.“